Rising Star og Fast50 - opið fyrir umsóknir
Fast 50 / Rising Star verkefnið er nú haldið í fjórða sinn á Íslandi og nú er um að gera að taka þátt og skrá þitt fyrirtæki til leiks.
Opið er fyrir umsóknir núna á www.fast50.is
Það kostar ekkert að taka þátt og umsóknarferlið gæti varla verið einfaldara.
Fast 50 er alþjóðlegt verkefni sem miðar að því að skapa tæknifyrirtækjum vettvang til að vekja athygli fjárfesta og annarra hagsmunaaðila vítt og breitt um heiminn á vexti og vaxtarmöguleikum sínum.
Samhliða Fast 50 átakinu fer fram keppni um vonarstjörnur tæknifyrirtækja (e. Rising Star), í samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu, Samtök iðnaðarins og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar gefst íslenskum frumkvöðlum og sprotum einstakt tækifæri til halda stutta kynningu á viðskiptahugmynd sinni og vekja athygli innlendra sem og erlendra fjárfesta á hugviti sínu og þróun.
Lykiláherslan í þessum hluta átaksins er á vaxtarmöguleika fyrirtækja og gefst 4-6 þátttakendum tækifæri til að kynna sitt fyrirtæki og viðskiptaáætlun þess á Fast 50 & Rising Star viðburðinum þann 1. nóvember 2018. Þau fyrirtæki sem verða fyrir valinu fá aðstoð og þjálfun á vegum Nýsköpunarmiðstöð Íslands til að efla sig og bæta í fjárfestingakynningum, svokölluðu Investors Pitch Boot Camp.
Verkefnið nær hápunkti sínum með léttu teiti, sem fer fram fimmtudaginn 1. nóvember n.k. kl. 17.00 – 19.00 í Háteigi, Grand hóteli í Reykjavík. Þar verður Fast 50 listinn birtur og úrslitafyrirtækin sem keppa í Rising Star kynna hugvit sitt og þróun fyrir dómnefnd og gestum viðburðarins. Það fyrirtæki sem raðar sér efst á Fast 50 listann og tveir Rising Star sigurvegarar fá meðal annars að launum ferð á stærstu tækni- og fjárfestaráðstefnu Evrópu: Slush í Helskinki.

