Sameinuðu þjóðirnar verðlauna Atmonia
Íslenska sprotafyrirtækið Atmonia hefur hlotið alþjóðleg verðlaun frá Sameinuðu þjóðunum (UNIDO - United Nations Industrial Development Organization) í flokki fyrirtækja með konur í fararbroddi. 440 fyrirtæki frá 100 þjóðlöndum voru tilnefnd og fá sjö þeirra viðurkenningu af ýmsu tagi.
Atmonia er íslenskt sprotafyrirtæki sem byggir á byltingarkenndum niðurstöðum úr rannsóknum í rafefnafræði við Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Atmonia aflar nú fjármagns til að ljúka við smíði á frumgerð að áburðarframleiðslutæki sínu. Um er að ræða lítið og hentugt tæki (á stærð við þvottavél) sem tekur inn loft, vatn og rafmagn og framleiðir nituráburð fyrir hvern bónda fyrir sig. Þannig getur hver bær haft sína eigin, umhverfisvænu áburðarframleiðslu, sem kemur í stað gríðarlegra flutninga frá stórum og miðlægum áburðarverksmiðjum. Með tækni Atmonia væri auk þess aflögð aldagömul aðferð við áburðarframleiðslu sem skilur eftir sig tröllaukið vist- og kolefnisspor.
Áburður Atmonia er framleiddur í vatnslausn og því er einfalt að skammta áburð með vatnsúðakerfi, sem tryggir betri upptöku næringarefna og minni losun efna í nánasta umhverfi. Rannsóknarhópur Egils Skúlasonar sem stendur að baki Atmonia hlaut nýlega öndvegisstyrk frá Rannsóknarsjóði Íslands og er stefnt á fyrstu prófanir í landbúnaði nú í sumar.
Verðlaun Sameinuðu þjóðanna eru mikill heiður fyrir Atmonia og eru staðfesting á mikilvægi vörunnar og gildi nýjungarinnar á heimsvísu. Verðaunin munu einnig koma þessu litla sprotafyrirtæki frá Íslandi í sviðsljósið á alþjóðlega vísu. Verðlaununum fylgir aðgangur að sérfræðingum á sviði landbúnaðartækni á heimsvísu sem og aðgangur að 70 hektara tilraunagarði á vegum Future Food Institute á Ítalíu.
Vefsíða Atmonia
www.atmonia.com

