Samkomulag undirritað við Skolkovo í Rússlandi
14. nóvember 2019
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Skolkovo stofnunin í Rússlandi hafa undirritað samkomulag um samstarf á sviði rannsókna og aðstoðar við sprota og frumkvöðlafyrirtæki á Íslandi og í Rússlandi. Samkomulagið hefur það að markmiði að auðvelda frumkvöðlafyrirtækjum beggja landa að komast í samstarf og auka aðgengi þeirra að stoðþjónustu landanna á milli.
Það var Arkady Dvorkovich, stjórnarformaður Skolkovo stofnunarinnar og fyrrverandi varaforsætisráðherra Rússlands sem undirritaði fyrir hönd Skolkovo og Sigríður Ingvarsdóttir, forstjóri fyrir hönd Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, að viðstöddum sendiherra Íslands í Rússlandi, Berglindi Ásgeirsdóttir.
Skolkovo er gríðarstórt svæði utan við Moskvu sem margir kalla svar Rússa við Silicon Valley. Rússneskir frumkvöðlar og nýsköpunarfyrirtæki hafa þar aðstöðu og fá aðstoð við að þróa tækni, þjónustu og vörur morgundagsins. Í Skolkovo eru fyrirtæki sem komin eru mjög framarlega í þróun varðandi sjálfvirknivæðingu, sýndarveruleika, gervigreind og upplýsingatækni, svo eitthvað sé nefnt.
Að sögn Sigríðar Ingvarsdóttur eru rússnesk stjórnvöld að leggja gríðarlega fjármuni og mikinn metnað í nýsköpunarstarf. „Möguleikarnir eru miklir í auknu samstarfi á ýmsum sviðum þróunar og tækni hjá frumkvöðlum. Rússland er þar að auki gríðarstórt markaðssvæði með 140 milljón íbúum. Við höfum átt í ábatasömu samstarfi varðandi fiskiðnað og tæknibúnað honum tengdum og það er eftir miklu að slægjast að sækja fram á fleiri sviðum í Rússlandi.“

