Smáþörungaverksmiðja Algaennovation opnuð
Algaennovation Iceland hefur opnað smáþörungaverksmiðju á Hellisheiði. Um er að ræða fyrsta verkefnið í Jarðhitagarði ON í Ölfusi, þar sem fyrirtækið nýtir rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvísýring beint frá jarðvarmavirkjun ON á Hellisheiði.
Ohad Bashan, forstjóri Algaennovation, bauð gesti velkomna og kynnti fyrirtækið stuttlega. Þá ávarpaði ráðherra samkomuna og í kjölfarið voru stutt ávörp framkvæmdastjóra ON, bæjarstjóra Ölfuss og framkvæmdastjóra Íslandsstofu. Að því loknu var klippt á borða og gestum boðið að ganga að fyrstu framleiðslueiningunum til að skoða þær í návígi og þiggja veitingar.
Verkefnið er fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem hátækni í sívöktun, gagnavinnslu og sjálfvirkri aðlögun kerfa er beitt til að ná hámarks árangri í ræktun smáþörunga, óháð tegund þörungs. Algaennovation skilgreinir sig sem hátæknifyrirtæki sem býður lausn við að breyta orku í fæðu (Energy to Food - E2F) með skilvirkari hætti en áður hefur þekkst auk þess sem starfsemin er kolefnisneikvæð, þ.e. umbreytir meiri koltvísýringi í súrefni en fylgir starfseminni. Þá er tæknin hér á landi klæðskerasniðin utan um jarðvarmaver á Íslandi og íslenskar aðstæður.
Til fróðleiks má geta þess að með tækni Algaennovation má framleiða prótein til manneldis á þúsund sinnum minna landsvæði en þyrfti ef sama magn væri framleitt með ræktun sojabauna - sem þó þykja einna skilvirkastar út frá umhverfissjónarmiðum.

